Gummi fékk þann heiður að koma með í Mont Blanc, TMB ferð sem aðstoðarfarastjóri með Haraldi/Fjallafélaginu í ár. Það hentaði ágætlega að komast aðeins í alpana, bæði að prófa eitthvað nýtt og að komast aftur á svæðið, en Gummi hafði ekki komið þar síðan teymið klifraði Risatönnina sælla minninga árið 2013.
Eftir að hópurinn hittist í Chamonix þar sem við fórum gróflega yfir planið hófum við gönguna daginn eftir við Notre dame de La Gorge kirkjuna í Frakklandi. Þar byrja margir gönguna þar sem leiðin frá Chamonix og þangað er yfirleitt ekin. Það var talsverður hiti allan tímann og því stuttbuxna- og bolaveður. Þessi kirkja er skemmtileg en það er magnað að sjá að hún er í raun að brotna í tvennt, lóðrétt sprunga liggur alveg frá útidyrunum og upp í rjáfur sem sést á einni myndanna.
Fljótlega stoppuðum við í hádegismat. Á svona lúxusleiðum er sannkallaður veislumatur í boði á veitingastöðunum þar sem m.a. var borinn fram lúxus ostabakkar og brauð.
Matarpásurnar taka því eðlilega aðeins lengri tíma en þegar maður sest niður á stein og sækir sér samloku og kex í bakpokann í dúnúlpunni hér heima í skafrenningnum.
Fyrsta daginn var gengið upp í Bonhomme skarðið og áfram í samnefndan skála. Sá skáli er frekar áhugaverður og er þjónustaður með þyrlu líkt og margir háfjallaskálar þar sem enginn vegur annar en göngustígurinn liggur að honum.
Þegar þangað var komið tóku við teygjur og slökun áður en við héldum inn. Í þeim skála fengum við aðeins að jafa út matargæði dagsins en boðið var upp á kartöflusúpu sem var fín þegar búið var að salta og pipra talsvert og einskonar skinkubixí sem var skemmtilega óvenjulegt.
Á leiðinni sáum við að maður teymdi upp múlasna, drekkhlaðinn af töskum sem tilheyrði hóp sem hann þjónustaði. Fróðlegt að sjá misjafnar aðferðir við þessar ferðir. Það er greinilega ekki bara í Himalaya og Andesfjöllunum sem notuð eru slík dýr til að flytja búnað.
Í Bonhomme skálanum sváfum við Haraldur í áhugaverðu gædaherbergi í rjáfri hússins. Þar gustaði aðeins á okkur sem var mjög þægilegt að fá svona ferskt fjallaloftið beint í öndunarveginn yfir nóttina enda hlýtt undir sænginni og í silkipokanum. Hópurinn fékk hinsvegar fín kojuherbergi í skálanum. Gumma þótti það einnig mikill kostur að í rjáfrinu voru ekki kojur, og hvað þá með endagafli, enda yfirleitt of langur í standard rúm.
Einnig var mjög gaman að hitta Guðmund Einar aftur, en hann kom með okkur Haraldi ásamt fleirum í Þríhnúkagíg fyrir rúmum áratug áður en lyftan var sett þar.
Daginn eftir var afar fallegur morgun, alveg heiðskýrt og innan skamms blasti tindur Mt. Banc við okkur ásamt hnúkunum tveimur rétt fyrir ofan Vallot hut. Dome du Gouter var einnig mjög greinilegt þar rétt fyrir neðan. Frá útsýnisstaðnum lá leiðin niður í La Ville de Glaciers sem er talsverð lækkun þar sem við snæddum hádegisverð áður en við hækkuðum okkur svo aftur upp í Col de la Seigne þar sem við yfirgáfum Frakkland í bili og gengum nú á Ítalíu.
Frá skarðinu var haldið í Elisabetta skálann í Ítalíu. Á leiðinni þangað gengum við framhjá færanlegu fjósi, þremur kerrum sem á voru mjaltabás fyrir 4 kýr, mjaltavélar og tankur ásamt rafstöðvakerru. Þar stóð einn maður og var að sinna búskapnum meðan við gegnum framhjá. Elisabetta skálinn er að hluta endurgerður eftir snjóflóð sem féll á hann og skemmdi fyrir nokkrum árum. Þar var góður matur og mikið mannlíf í þeim skála.
Næsta dag var gengið til Courmayeur. Sú leið er afar falleg, enda eru suðurhlíðar Mt. Blanc ótrúlega flottar og ógnvekjandi á sama tíma. Við okkur blöstu tindar á borð við Aiguille du Noir og Grandes Jorasses sem létu minna á sig að væru flott markmið einhvert árið.
Hádegismaturinn var tekinn í seinna lagi þennan dag á skíðasvæði ofan við Courmayeur þar sem okkur þjónaði alveg orginal innfæddur ítali sem skemmti okkur vel. Næst var haldið niður í Courmayeur og lá leiðin þangað niður ansi brattann skógarstíg ásamt því að hitinn jókst svakalega þegar við nálguðumst þorpið og lækkuðum okkur. Leiðin liggur um gamla hluta Courmayeur sem er gaman að ganga í gegnum. Svona þröngar götur og hlaðin hús allsstaðar bera ákveðinn sjarma yfir sér. Við gengum nokkra km um Courmayeur þangað til við komum á hótelið okkar í miðbænum þar sem við komumst í sturtu áður en við hittumst svo í kvöldverð um kvöldið.
Næsta dagleið liggur að Bonatti skálanum en þar sem hálfgert lotterý er um að komast að í honum náðist ekki að bóka pláss í honum fyrir sumarið svo að við fórum langleiðina að honum og fengum okkur hádegisverð. Planið var að fara niður í Val Ferret dalinn en þar hafði runnið stór aurskriða sem bæði lokaði veginum og hafði tekið út vatnsból Courmayeur svo að við settum bara í hlaupagírinn og fórum niður sömu leið sem endaði í sturtu í einum fossinum neðst þar sem mikill hiti var á svæðinu. Eftir þetta héldum við yfir til Chamonix aftur þar sem við héldum í önnur ævintýri.
Við héldum til í 2 daga í Chamonix og var fyrri dagurinn nýttur til að ganga upp að Lac Blanc vatninu og nágrenni ásamt að bjóða upp á Via Ferrata leið fyrir þá sem vildu. Þennan dag fékk Gummi hinsvegar í magann svo hann þurfti frá að hverfa. Heppilega vildi til að við héldum til á sama hótelinu þessa daga svo hann gat sofið í um sólarhring meðan hann jafnaði sig á magahreinsuninni. Fyrir vikið missti hann af þessum dögum, en seinni daginn var farið upp í Aiguille du Midi, yfir Helbronner útsýniskláfinn og í jöklagöngu Ítalíumegin í háfjöllunum innan um stóru 4000+m tindanna.
Eins og alltaf kynnist maður nýju fólki í hverri ferð og var þessi ferð engin undantekning þar. Stórskemmtilegt fólk með ólíkan bakgrunn og sameiginleg áhugamál er alltaf ávísun á eitthvað skemmtilegt. Það kom Gumma hinsvegar skemmtilega á óvart hversu mörg okkar voru úr eða tengd hugbúnaðargeiranum. Ég hafði þó vit á að ræða hvorki gagnagrunnsstefjur né tab vs. spaces, enda fólk í sumarfríi.