Heljaregg og Hraundrangi

Arnar og Gummi fóru 2 sígildar klettaleiðir um mánaðarmótin ágúst/september til að koma sér í smá klifurgír fyrir veturinn. Góða veðrið var notað og fórum við í Heljaregg eftir nokkurt hlé frá þeirri leið.
Það var gaman að rifja upp þessa leið sem við höfum farið nokkrum sinnum og ávallt haft gaman af. Palli setti nokkra bolta í hana fyrir nokkrum árum sem gera hana aðeins öruggari þar sem nokkrir staðir eru illtryggjanlegir.

Leiðin er ekki mjög tæknilega erfið, en á leiðinni eru nokkrir flottir staðir þar sem auðvelt er að finna fyrir lofthræðslu þar sem bratt og hátt er niður beggja vegna leiðarinnar.
Hún er því ágæt fyrir þá sem hafa klifrað svoldið og vilja taka næsta skref í fjölspannaklifri með dót. Varið ykkur þó á lausu grjóti og að það er hægt að brjóta út grip!

Á einum stað var Gummi búinn að setja góðan vin í sprungu og var byrjaður að klifra uppfyrir hann þegar gripið sem hann hélt í brotnaði svo að hann tók örlítið fall í vininn sem var við magahæð þegar fallið varð.
Við nánari skoðun kom í ljós að brotið var nokkuð stórt. Það brotnaði nefnilega undan hálfum vininum líka svo að aðeins önnur hlið vinarins hélt í sprunguna. Þetta kom ekki að sök og eftir smá púst var haldið áfram.

Það er alltaf gaman að koma upp á turninn, en þaðan er sigið niður nokkra metra og haldið áfram upp nokkur stutt klettabelti upp á brún.
Við vorum ekki með vængina með í þetta skiptið vegna mikillar vindaspár, en töldum þó flughæft þegar upp var komið, svo niðurgangurinn var aðeins verri en ella.

Helgina eftir skelltum við okkur svo norður og heimsóttum Hraundranga, okkar gamla vin eftir nokkura ára hlé þaðan líka.
Þar hittum við annað teymi sem voru aðeins á undan okkur. Hressir pólskir strákar sem toppuðu og svo sigu þeir framhjá okkur þegar við vorum í klifrinu sjálfu. Það er alltaf gaman að hitta hressa klifrara á fjöllum, en þeir höfðu gist í tjaldi nærri Staðarbakka og tóku daginn snemma.

Við Arnar tókum þetta í tveimur spönnum eins og vanalega og pössuðum okkur sérstaklega að stoppa í fyrri stansinum milli klifurspanna þar sem meiri líkur eru á grjóthruni þegar maður stendur alveg undir toppagilinu sem maður tekur í lokin.
Við mælum því eindregið með að stoppa þar heldur en næst akkeri sem er aðeins nokkrum metrum frá.

Tókum okkur góðan tíma á toppnum að njóta og taka myndir og myndband á drónann góða. Það er mjög gaman að skoða Hraundranga úr lofti þar sem maður getur skoðað klettana vel allan hringinn með hjálp drónanns.
Á leiðinni niður fór þoka að skríða inn Hörgárdal og gengum við niður í þétta þoku rétt áður en við komum niður á sléttlendið.
Við hittum líka hressa eldri konu á Staðarbakka sem var gaman að spjalla við. Einnig viljum við minna klifrara á að kíkja við á bænum og láta vita af sér. Fólkið er mjög vinalegt og það er almenn sjálfsögð kurteisi að láta vita af sér þegar maður fer um lönd annara.

Á sunnudeginum fórum við svo í rafting í Jökulsá austari í Skagafirði, en við tókum ekki með myndavélar þangað svo að þaðan tökum við bara minningar. Mælum þó með að fara í rafting þar, hörku fjör!

Myndir

Arnar að leggja af stað í Heljaregg
Heljareggin er hryggurinn sem sólin skín á
Gummi
Arnar
Arnar að byrja á fyrstu spönn
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar tók svo 2. spönn
Arnar
Gummi að elta 2. spönn
Arnar að elta 3. spönn
Arnar í 4. spönn
Arnar
Arnar að komast á turninn
Arnar
Arnar
Arnar
Gummi
Gummi
Arnar
Turninn séður að ofan
Grjóthleðslan á toppnum
Arnar í tengihaftinu uppi
Leiðin liggur upp hægra megin við gilið fyrir miðju.
Niðurgangur
Á leið á Hraundranga
Sveitt selfí
Hraundrangi
Arnar
Arnar að leggja af stað á Hraundranga
Arnar
Arnar
Gummi á toppnum við akkerið
Selfí á toppnum
Arnar kominn niður
Selfí, Gummi er að klöngrast niður bratta gilið
Niðurgangur frá Hraundranga
Þokan var kominn inn dalinn seinnipartinn