Mikið frost, bjart veður og kyrrð einkenndi þennan annan dag jóla þetta árið í Borgarfirði. Það var nefnilega komið að árlegu ferðinni hans Gumma en í ár runnu 14. jólin sem þessari hefð er viðhaldið í garð. Í ár var það Bjartmar sem kom með á fjallið.

Spáin nokkrum dögum fyrir ferðina sagði að það yrði logn á svæðinu þennan dag og því var hugað að ferðinni með flug í huga en um morguninn þegar Gummi kíkti á loka-veðurspána var hinsvegar útlit fyrir að um og upp úr hádegi var stormviðvörun á suðurlandi og að það ætti að ná inn í Borgarfjörðinn einnig sem varð til þess að við skildum vængina eftir í þetta skiptið.

Það var um 20 stiga frost þegar við hófum ganginn við afleggjarann að bænum Horni í Skorradalshreppi. Hliðið var hinsvegar ekki lokað í ár en þegar við gengum framhjá bænum kom í ljós að framkvæmdir eru í gangi á svæðinu og búið að leggja veg upp á heiðina fyrir ofan bæinn. Hvað stendur þar til vitum við þó ekki, en einnig var búið að reisa veðurathugunarstöð á einum ásnum þar.

Það var svoldið af snjó á heiðinni og var hann mjög þurr eins og hér um höfuðborgarsvæðið. Þar sem grunnvatn eða smá rennsli var er nú svakalegur klakabunki. Á einum stað var eins og væri að myndast nýr jökull undir Skessuhorninu sjálfu.

Við fórum upp aðeins nær Skessuhorninu en vanalega þar sem talsverður snjór var í venjulegu leiðinni, en þessi þurri snjór sem ræður ríkjum núna er algjörlega gagnslaus til klifurs.

Þegar við komum upp á öxlina undir hryggnum var algjört logn. Það er ansi sjaldgæft að upplifa það á þessum stað svo að við héldum leið okkar áfram upp.
Leiðin var í talsvert erfiðari aðstæðum en vananlega þar sem engin hláka hefur verið frá því að það byrjaði að frysta og því er allt algjörlega þurrt þarna. Engin ís eða harðfenni en þó smá frosinn mosi. Því var þetta talsvert ofbeldi á axirnar sem fengu aðeins að finna fyrir grjótinu á nokkrum stöðum og voru 2 höft á leiðinni í hálf vafasömum aðstæðum þetta árið.

Allt hafðist þetta á endanum og við stóðum á toppnum í algjöru logni og blótuðum spánni bak og fyrir þar sem við höfðum skilið vængina eftir og nú þyrftum við að taka allt að 2 klukkustunda niðurgang sem við hefðum auðveldlega geta sleppt ef við hefðum látið gömlu spána gilda.

Sól var á toppnum þar sem hún rétt náði að kíkja yfir Skarðsheiðina sálfa. Við fórum óvenju langt inn á hrygginn á móti Skarðsheiðinni í þetta skiptið og í sólinni var gaman að sjá Skessuhornið frá því sjónarhorni þó svo að stóra myndavélin hafi ekki komið með í þetta skipti.

Gangan niður gekk þó auðvitað vel og komum við í bílinn eftir 6,5klst ferðalag. Nógu snemma til að Gummi náði (þó aðeins seint) að mæta í matarboðið sem var skipulagt þetta kvöld.

Myndir

Bjartmar á heiðinni
Mjúkur skafsnjór mestalla leiðina
Gott að komast í smá halla þar sem snjónum hafði blásið burt
Bjartmar fylgir klettunum
Hér er enginn smá svellbunki. Hef ekki séð þetta svona mikið áður
Bjartmar kominn í hrygginn
Bjartmar klifrar
Blíða á toppnum. Sólin skín yfir Skarðshorn og Heiðarhorn
Bjartmar
Gummi
Horft niður Leirárdal
Skessuhorn séð frá hryggnum að Skarðsheiðinni
Tengihryggurinn
Nokkrir skafskaflar á leiðinni
Þarna fóru Gummi, Arnar og Óðinn upp árið 2006
Gleymdi næstum að taka mynd af norðurveggnum. Lítið sem enginn ís er kominn þar