Hann var búinn að vera lengi á dagskránni Tindurinn svokallaði í Tindfjöllum. Hann er staddur utar á hryggnum sem Hornklofi stendur á og er sunnan við Ými og Ýmu - hæstu tinda Tindfjalla.

Loksins náðum við að fara í ferð saman allir fjórir, en við höfum lítið mátt vera að því að ferðast síðustu mánuði. Veðurspáin var köld og björt, allavega ekki úrkoma þessa helgina svo við ákváðum að fara loksins og heimsækja Tindfjallaskála Íslenska alpaklúbbsins sem við erum búnir að vera félagar í frá því við byrjuðum á þessu fjallabrölti, nú í 17 ár. Við höfðum komið í skálann áður en ekki gist í honum.

Við fórum á tveimur bílum úr bænum eftir vinnu á föstudeginum, en þurftum svo að skilja annan bílinn eftir vegna ísskara á læknum við bæinn Fljótsdal þar sem keyrt er upp heiðina að skálanum. Mikið frost var svo lækurinn var frosinn, en bílarnir brutu sig niður úr ísnum og því ekki hægt að fara nema á jeppum. Við vorum að sjálfsögðu löngu búnir að gleyma að þarna þarf að fara yfir vað til að komast að heiðinni, enda er þetta vað mjög auðvelt yfirferðar ófrosið.
Þá var dótinu skóflað yfir í bílinn hans Gumma og haldið upp á heiðina. Sem betur fer var ekki mikil hálka í brekkunni upp. Aðeins þurfti að fara framhjá smá svellbunka á einum stað en sem betur fer var jörðin var alveg frosin sem gerði okkur kleift að komast upp. Við náðum að keyra alveg að skálanum, svo það var bara farið beint í að koma sér fyrir og græja aðeins fyrir morgundaginn.

Til að gera þetta einfalt og fljótlegt var aðallega borðaður þurrmatur, enda eitthvað til af honum eftir alla leiðangranna undanfarin ár og um að gera að nýta þetta því þetta er hinn besti matur ef maður velur hann rétt.
Svo var tekið "sjoppulegra" fóður í nesti og nasl á kvöldin.

Stefnan í ferðinni var að kanna hvort ekki væri fýsilegt að komast á Tindinn sem við höfum talað um í mörg ár en ekki gefið okkur tíma enn í að skoða.
Morguninn eftir var stefnt að jökuldalnum og upp hjá Búra. Þaðan var svo tekinn sveigur suður og austur fyrir Hornklofa. Kalt var í veðri, frost og talsverður vindur. Það þarf að brölta svoldið upp og niður og í hliðarhalla í aðkomu að Tindinum svo við fórum í broddanna á slétta svæðinu undir Búra þar sem við sjáum hrygginn og Tindinn blasa við.

Við dreifðumst aðeins á leiðinni, enda kalt og þá ekki mikil stemmning fyrir að bíða mikið. Svo voru Gummi og Bjartmar komnir að síðustu brekkunni að tindinum sjálfum en sáu ekki Arnar og Óðinn svo að þeir héldu upp brekkuna sem var trúlegast um 80m löng eða a.m.k. rúm línulengd trúlega um 70° brött í harðfenni. Þegar þangað var komið sáu þeir Arnar og Óðinn á syllu aðeins á eftir okkur þar sem þeir voru kyrrir og horfðu á okkur. Eftir smá samskipti varð úr að þeim leist ekki á veðrið svo Arnar kom með hina línuna í átt til Gumma og Bjartmars eða þangað sem þeirra lína náði niður harðfennisbrekkuna. Frostið var þarna trúlegast milli 15 og 20 stig og svipaðar tölur í vind.

Arnar og Óðinn héldu þá áfram austur og suður fyrir tindinn á leið til baka í skálann meðan Gummi og Bjartmar héldu áfram að tindinum sjálfum. Til að komast að tindinum þarf að komast á smá hrygg undir hlíðinni sem er farin upp. Þar voru kvartanirnar frá strákunum farnar að hafa áhrif á Bjartmar svo úr varð að Gummi fór einn upp á topp, tók selfí og seig svo niður aftur. Ekki var mikið efni til að búa til sigakkeri uppi, aðeins 6-15cm frosinn snjór, en það dugði alveg þar sem hann útbjó stórann snjópolla til að síga á svo ekkert var skilið eftir í þessari ferð.
Útsýnið uppi var skemmtilegt, og smá hryggur er frá staðnum þar sem maður kemur upp á brún og á blátoppinn sem stendur á smá hrygg, þó ekki nema kannski svona 8m frá. Kuldinn hefur ekki mikil áhrif á svona flottum stöðum meðan maður er í svona ati, en eftir stutt stopp og nokkrar myndir teknar seig Gummi niður og þá sá Bjartmar auðvitað eftir að hafa ekki drifið sig upp líka. Það var þó ákveðið að drífa sig niður í skála aftur fyrir myrkur svo við þræddum okkur til baka niður úr mesta brattanum.

Til að hafa bakaferðina sem þægilegasta að þá fórum við niður í dalinn sunnan við Hornklofa, bratt niðurklifur þar sem við vorum búnir að spotta leið þar sem ekki var klettar sem við hefðum þurft að síga fram af. Þarna var reyndar alveg hrikalegur hliðarhalli á glerhörðum snjó sem Gummi varð mjög þreyttur á fljótlega svo það hægði aðeins á okkur.
Eftir niðurbrölt í nokkurn tíma komum við í skálann. Hinsvegar vantaði eitthvað þegar þangað var komið, Bjartmari og Gumma til mikillar furðu voru strákarnir ekki komnir. Eftir smá tíma og nokkur símtöl til viðbragðsaðila birtust þeir á sjóndeildarhringnum þreyttir eftir mun lengri göngu suður fyrir Tindinn.

Þessi ferð var dáldið mögnuð og lærdómsrík. Við vorum í miklum kulda sem fer misvel í fólk og þegar við skiptum liði var ákveðið að fara óþekkta leið suður fyrir Tindinn enda þurftu þeir að bæði að fara talsvert lengri vegalengd og bæta við fullt af hækkun sem Bjartmar og Gummi þurftu ekki að taka. Meðan Bjartmar og Gummi fóru 13km og 915m hækkun, fóru Arnar og Óðinn 18,5km og 1400m hækkun. Einnig má deila um ágæti þess hjá Gumma að fara einn á tindinn, en Bjartmar hélt þó í línuna á meðan hann kleif upp. Og miðað við kuldann teljum við rétt að hafa kallað til aðstoðar við leit á þeim áður en við hefðum farið sjálfir að leita. Sem betur fer komu þeir í ljós fljótlega og við gátum afturkallað viðbragðið áður en það varð að einhverju stóru þar sem ekki leið langur tími þangað til þeir komust í samband og létu okkur vita að þeir væru rétt ókomnir.

Varðandi klifrið á Tindinn sjálfan að þá er þetta þessi 80m harðfennisbrekka sem við einfórum. Þaðan þræddum við okkur upp yfir eina rennu og á lítinn stall við norðurhlíð Tindsins. Þaðan þarf að taka skrýtna hliðrun utaní hreinum ís og síðan klífa hann nokkra metra þangað til komið var í gott og þægilegt harðfenni. Ísinn var 80-90° en stuttur og við tók 70-80° harðfennisbrekka upp á topp. Aðeins var sett ein skrúfa í ísinn en annars hefði þetta helst verið snjóhælar sem við hefðum notað en í svona harðfenni sem er eiginlega eins og hinn besti hetjuís getur verið ákjósanlegt að halda bara áfram og klára ef klifrari finnst hann öruggur þó við mælum ekki með því, sérstaklega fyrir byrjendur og styttra komna.

Um kvöldið var ekki mikil orka eftir og því varð kvöldvakan ekki langt fram á nótt. En auðvitað var Fjallateymispelinn tekinn fram og gætt sér á góðu bragði fyrir svefninn eftir þurrmatinn ásamt smá nammi og snakkáti.
Bíllinn var ekkert sérstaklega hrifinn af því að fara í gang í þessu frosti á sunnudagsmorgninum en það hafðist þó sem betur fer fyrir rest. Þegar niður af heiðinni var komið leit áin ekkert sérlega vel út þar sem hún hafði frosið heldur asnalega eftir bílferðirnar en við leystum það vel og komum við í frábæru sundlauginni í Hveragerði á leiðinni í bæinn.

Myndir

Arnar
Gummi
Gummi
Óðinn
Óðinn
Arnar
Fórum upp þetta gil
Flott mynstur í snjónum hér
Komnir upp á Tindfjallajökul
Skóreimastopp
Gengið framhjá Búra
Hér er Tindurinn sjálfur
Óðinn í hliðarhalla
Önnur sýn á Tindinn, farið er upp hlíðina í skugganum vinstra megin
Arnar og Óðinn
Bjartmar á hryggnum undir toppnum
Útsýnið af toppnum
Blátoppurinn er smá hryggur
Þarna er komið upp, og smá éljagangur kominn
Seig niður á þessum polla, var grafinn niður á fast
Þarna sést í öxlina  til vinstri sem þarf að þvera á áður en þvera þurfti íshaftið
Á bakaleiðinni
Fórum niður þessa bröttu rennu til að spara okkur sporin
Bjartmar í kvöldsólinni
Tindurinn séður vestan megin, fórum þarna niður í skarðinu