Það er orðið jafn sjálfsagt hjá Gumma að fara á Skessuhorn á jólunum eins og það er að hengja upp jólaseríuna í aðdraganda jólanna. Að þessu sinni voru jólin sjálf tekin á Akureyri en glugginn er frá jóladag og til 6. janúar eða þrettándans.

Í ár fór Andri Sveinsson með Gumma laugardaginn 30. desember, en þeir hafa reyndar þekkst mun lengur en þeir hafa stundað fjallamennsku þar sem okkar leiðir lágu saman á karatemótum þegar við vorum talsvert yngri.
Eitt árið hittum við einmitt Andra í Skessuhorninu þar sem Gummi gjóaði að honum að hann þyrfti einhverntíman að koma með í jólatúrinn. Þetta eru ansi mörg ár síðan og nú var komið að því.

Rétt fyrir og um jólin sjálf hafði verið kyrrlætis veður að mestu og snjóað talsvert án skafrennings. Þetta gaf vísbendingar um hvernig aðstæður væru, en mjög mikill snjór var alla leiðina. Fyrir nokkrum árum var talsverður snjóþungi, en þá var ekki eins mikið þegar ofar dró þar sem skafið hafði úr fjallinu sjálfu en nú þurfti meira að segja að troða á pöllunum milli hafta í Horninu sjálfu.
Kvöldið áður hugsaði Gummi nú um að það gæti alveg verið sniðugt að vera með snjóþrúgur fyrir aðkomuna, en hætti við þar sem þetta hefur nú svosem aldrei verið neitt vesen hingað til þó einhver snjór væri á heiðinni.

Snjóþyngslin reyndust vera svo mikil að vaða þurfti snjó upp í hné nánast alla leiðina. Þetta tafði okkur umtalsvert svo nýtt tímamet var slegið, eða um 9klst og hefur þetta semsagt aldrei tekið svona langan tíma. Það var komið myrkur þegar við komum í bílinn aftur og klukkan orðin svo margt að við vorum þegar búnir að missa af kvöldmat og enduðum því í fóðurblöndunni í Borgarnesi þar sem við gæddum okkur á súpu áður en haldið var heim.

Klifrið sjálft gekk hins vegar bara vel sem betur fer. Svoldið af snjó og íshröngli á klettunum, en 1-2cm íslag á mörgum stöðum og frosinn mosi gerði það bara ágætt. Tryggingar voru bara settar með klifuröxnum sjálfum.

Myndir

Frá aðkomunni
Andri að troða í aðkomunni
Að nálgast hornið
Andri á leið upp á öxlina
Komnir í hrygginn sjálfann
Andri
Andri
Tvista steinn?
Hér var tryggt í aðra öxina upp stutt haft
Andri
Hressandi brölt
Andri
Í hliðrun, talsverður snjór
Komnir upp á brún
Efst á leiðinni niður
Þetta landslag verður bara aldrei þreytt
Smá niðurklifur
Skarðshorn og Heiðarhorn
Að koma niður skálina
Skarðs- og Heiðarhorn gnæfa yfir
Norðurveggurinn, ekki mikið að frétta hér á þessum árstíma