Eftir smá hlé frá fjallaleiðsögn síðustu ár fór Gummi aftur á Hnúkinn. Að þessu sinni voru það hlaupafélagar sem komu með en það hefur verið nefnt af og til í gegnum árin að margir vinir úr hlaupasamfélaginu höfðu ekki komið á Hnúkinn, en vildu gjarnan komast þangað.
Þessi hugmynd var einnig uppi síðasta vor, en ekki fannst tími til að fara þá. Það er því miður þannig, og þetta ár er engin undantekning frá því að það komast einfaldlega ekki allir alltaf á sömu dögum. Í upphafi stefndi í að við yrðum 6-7 talsins en endaði í 5 þegar uppi var staðið. Inn i það spilaði einnig að veðrið var mun betra fyrir uppstigningardag heldur en helgina og því var ekkert annað í stöðunni en að fara eftir vinnu á miðvikudegi og ganga upp strax um nóttina. Það þýddi nefnilega að við þurftum að taka okkur frí á föstudegi.
Gummi ásamt Önnu Siggu, Berglindi, Hildi og Ragnheiði fóru í ferðina.
Við höfðum öll komið að bakgarðshlaupinu á einhvern hátt sem var nokkrum dögum fyrir ferðina. Þar fylgdumst við með hlaupurum hlaupa langt yfir 300km á þriðja sólarhring. Það var því ekkert annað að gera en taka einn all-nighter þeim til heiðurs og leggja þannig af stað um leið og komið var austur, án þess að leggja sig fyrst. Það væri bara einfaldlega inn í dag að taka svona úthald.
Á leiðinni austur var stoppað í kvöldmat í Vík þar sem öll skelltum við í okkur góðri máltíð á Halldórskaffi. Við vorum heldur seint á ferðinni og vorum við ekki komin í Öræfasveitina fyrr en um kl. 23.
Eftir smá skipulagsstopp á næturstað vorum við klár í slaginn og hófum gönguna á slaginu miðnætti. Það voru fáir bílar á bílastæðinu við Sandfellið og ekkert fólk sjáanlegt.
Það var höfuðljósafæri fyrstu 2 klukkustundirnar meðan gengið var upp Sandfellið. Að þeim loknum vorum við bæði komin í snjó og einnig var farið að birta til, enda alveg heiðskýrt eins og spáin hafði sagt til um.
Við vorum heppin með það að upp jökulinn voru gönguspor sem við gátum nýtt okkur og þurfti því ekki að troða ný spor upp alla brekkuna. Það var ekki mikið um sprungur, en þó sást móta fyrir nokkrum ofarlega í brekkunni áður en komið er upp á brún. Sáralítið sást ofan í þær, enda talsverður snjór á svæðinu.
Það var ekki mikið stoppað framanaf, en þegar við komum upp á Öskjubrún var tekin góð pása, mokuðum holu í snjóinn og settumst í hring með neyðarskýlið yfir okkur svo engum yrði kalt. Þar var lagað kaffi, borðað nesti og settum á okkur sólarvörn, en sólin byrjaði einmitt að skína á okkur þarna undir brúninni.
Þegar þangað er komið blasir auðvitað Hnúkurinn við og allt virðist vera svo nálægt, en þá héldum við áleiðis í átt að tindinum og undir honum tókum við broddastopp.
Þá kom í ljós að Gummi hafði aðeins flýtt sér of mikið áður en við lögðum af stað og tók óvart eitt par af smellubroddum sem áttu að vera ólaðir broddar. Sem betur fer var ekki mikill ís í Hnúknum svo það slapp til að við vorum ekki öll með brodda.
Röltið upp á Hnúkinn sjálfan leynir aðeins á sér, en brekkan upp breytist sífellt og nú er brekkan orðin nokkuð stöðug og brött miðað við hvernig þetta var fyrir nokkrum árum. Það kom auðvitað ekki að sök og við komum fljótlega upp á topp þar sem við tók eitt besta útsýni sem Hvannadalshnúkur getur boðið upp á.
Þar sáum við Mýrdalsjökul, Tindfjöll, Heklu, Kerlingafjöll, Kverkfjöll, Herðubreið og Snæfell í fjarska og í nærumhverfinu sáum við Öræfajökulsöskjuna, Þumal, Miðfellstind, Ragnarstind, Hrútfjallstinda, Mávabyggðir, Esjufjöll og Þverártindseggina til að nefna eitthvað. Svo má aldrei gleyma að kíkja niður á Tindaborgina, hrikalega flottur tindur sem finna má grein um hér á vefnum.
Eftir smá stopp á Hnúknum þarf jú að halda áfram og koma sér niður. Við tókum okkur smá tíma til að komast niður og þegar komið var niður á sléttuna tókum við aðra góða nestispásu áður en hinn eini og sanni niðurgangur hófst.
Við hugsuðum mikið um það á leiðinni niður hvað það hefði verið þægilegt að vera með skíði til að geta bara brunað niður brekkuna löngu sem virtist líka vera löng niður en ekki bara upp.
Þegar við komum niður fyrir snjólínu hittum við erlendan flugmann sem var að fara í loftið af Sandfellheiðinni. Sá náði flottri hæð og væri gaman að sjá hvert hann komst, því síðasta sjónarhorn af honum var hann staddur yfir Hvannadalshryggnum.
Þá var farið á gististað, grilluðum okkur eðal lambakjöt áður en við steinsofnuðum og hvíldum okkur duglega áður en keyrt var í bæinn á föstudeginum.