Þá eru Skessujólin orðin 16! Í ár fór Addi með Gumma og spáin fyrir daginn gaf í skyn að flug gæti orðið mögulegt sem varð heldur betur ekki raunin þegar á staðinn var komið.
Þegar við vorum að keyra út úr bænum sögðu skiltin að það væri 22m/s í hviðum á Kjalarnesi og eitthvað svipað undir Hafnarfjalli. Það var þó skjól í sveitinni undir Skessuhorninu en við horfðum á óveðurskýin yfir Skarðsheiðinni ganga hratt yfir.
Við ákváðum þó að taka vængina með og höfðum orð á að ef við tækjum þá ekki með að þá yrði pottþétt komið flugveður þegar upp var komið. Svo við tókum þá með og viljum meina að þess vegna hafi rokið haldið sér svona vel.
Vindurinn fór að bíta á okkur þegar við vorum komnir ofarlega í heiðina undir fjallinu og hitastigið var eitthvað talsvert undir -10°c.
Klifrið sjálft gekk mjög vel, aðstæður frábærar til klifurs þar sem auðvelt var að ná festum í ísingu og frosnum mosa sem er einstaklega þægilegt á þessum stað.
Það var lítið stoppað á leiðinni vegna kuldans, en á toppnum var þó skjól þar sem vindurinn lenti þannig á fjallinu að það myndaði skjól á toppnum sjálfum. Við gátum því aðeins stoppað þar og fengið okkur nesti og verðlaun eftir prílið upp.
Niðurleiðin í skálinni var líka ágæt, þar var ekki mjög mikill snjór og bara nokkuð þægilegt til niðurgangs. Hins vegar lentum við beint í mjög djúpum vindpökkuðum snjó þegar niður úr brattanum var komið en sem betur fer entist það ekki lengi.