Við Tómas fórum loks á Kirkjufellið í vetrarútilegu eftir að hafa talað um það í nokkrar vikur.
Tómas hefur verið duglegur að fara á hin ýmsu fjöll á nýliðnu ári og þar má helst nefna Matterhorn og Ama Dablam sem væri mjög spennandi að ná að taka í framtíðinni. Þess má geta að geta að Gummi reyndi við Matterhorn ásamt pabba sínum, Jóni Helga árið 2006 en þá snerum við til baka í tæpum 4000m vegna grjóthruns. Matterhorn er því klárlega ennþá á draumalista Gumma yfir fjöll til að klífa.
Það er eitthvað sérstakt við að tjalda á fjallatoppum og það að gera það á veturna gerir það bara enn magnaðara. Það kallar hins vegar á ennþá meiri búnað þar sem fjöllin eru oft erfiðari yfirferðar á þessum árstíma. En það sem mestu máli skiptir er auðvitað að þetta sé skemmtilegt, að maður fái æfingu út úr þessu og góðar minningar sem maður getur leitað í þegar maður þarf á að halda.
Við höfðum ákveðið að hittast í Grundarfirði um kvöldmatarleitið á laugardagskvöldinu, fá okkur að borða og ganga svo upp á Kirkjufellið um kvöldið. Tómas var að koma frá Arnarfirði og Gummi frá bænum en veður og færð tafði aksturinn talsvert á Barðastrandarleiðinni svo Gummi var kominn talsvert á undan svo við borðuðum í sitthvoru lagi og hittumst svo seinna um kvöldið.
Í millitíðinni náði Gummi að fara í smá norðurljósamyndatöku enda buðu ljósin upp á mjög flotta sýningu um kvöldið þar sem nokkrar myndir náðust af verkefni kvöldsins.
Þegar Tómas kom kláruðum við að græja okkur og hófum við gönguna uppúr kl. 22.
Mýrin á uppleiðinni gekk ágætlega þó þar væri svona skelsnjór sem oftar en ekki brást þegar gengið var á henni þannig að við sukkum aðeins niður. Það var þó ekki mjög djúpt og fórum við í broddanna eftir nokkuð þramm upp fyrstu brekkurnar.
Það hægir taslvert á ferðinni þegar maður er með svona mikinn útbúnað, en í svona ferð þarf bæði ísklifurbúnað og útilegubúnað sem vigtar talsvert þegar um vetrarbúnað er að ræða. Því vorum við komnir upp að síðstu brekkunni sem er í austurhlíð fjallsins um kl. 2 um nóttina. Hún var nánast ótryggjanleg nema með spektrum, en þar sem við vorum bara með eina slíka ákváðum við að þetta væri bara komið gott og við skelltum upp tjaldinu á fínni syllu undir toppnum. Snjólagið sem er þarna núna er mjög þurrt og þunnt og heldur því engu. Þá notuðumst við aðallega við ísaxirnar og spektruna til að halda tjaldinu niðri og skriðum svo sælir ofaní svefnpokana um kl. 3 þegar allt var tilbúið og við búnir að taka nokkrar myndir af þessu flotta tjaldstæði.
Maður sefur yfirleitt ágætlega á svona alvöru gististöðum, en samt rifum við okkur á fætur milli kl. 8 og 9 þegar tók að birta þar sem Gummi var að fara í jólaboð þegar heim var komið. Við hituðum okkur vatn, borðuðum smá nesti og einn þurrmatspakka og tókum svo niður tjaldið og komum öllu dótinu fyrir í (og á) bakpokunum. Þegar við hófum gönguna niður var klukkan orðin 10 og dagsbirtan tekin yfir.
Það gekk mjög vel að fara niður og tókum við nokkur sig á leiðinni sem minnkar aðeins sikk sakkið sem maður þarf annars að fara. Við vorum með eina 60m línu svo við náðum mest 30m sigi í einu.
Annars vorum við komnir niður í bíl í hádeginu og héldum við heim á leið í sæluvímu eftir stórskemmtilegan túr. Og Gummi náði að hitta flesta í jólaboðinu rétt áður en fólk hélt heim á leið svo þetta fór allt vel á endanum.