Gummi er að vinna að því að gefa út ljósmyndabók eftir að hafa verið að ljósmynda í útivist í 20 ár. Þar kemur ýmis útivera við sögu og meðal annars hellaferðir sem við vorum duglegir að fara í á árum áður. Á þeim tíma fórum við í hellinn Ferli og náðum flottum myndum en fórum þó ekki að einni mögnuðustu mynduninni þar sem er lítill hraunfoss í þrem mismunandi litum. Það var því kominn tími á að ljúka þessari skoðun og ná myndum af því.

Við fórum því fjögur í þetta skiptið, en ásamt Gumma fóru Guðni frá Hellarannsóknarfélaginu, Daníel jarðfræðingur og Marie í leiðangur í skammdeginu fyrst það er ekkert farið að snjóa enn. Um leið og það fer að snjóa eða skafa, þá lokast þetta fljótt svo bíða þarf til næsta sumars. Það slapp vel í þetta sinn sem er eiginlega alveg ótrúlegt að enginn snjór sé kominn í fjöll um miðjan janúar!

Í þessum helli þarf að skríða svolítið og klöngrast til að komast leiðar sinnar. Þarna eru stórbrotnar en um leið viðkvæmar myndanir sem þarf að passa vel upp á eins og í mörgum hellum. Ferlir er hvað þekktastur fyrir litskrúðugar hraunmyndanir og að vera í mikilli þrívídd þar sem hann er eiginlega á nokkrum hæðum. Þess ber að geta að Umhverfisstofnun er að loka hellinum til verndunar og er hann því ekki aðgengilegur lengur nema með þeirra leyfi. Það er kannski ekki síst þess vegna sem gott var að mynda hann vel svo fólk geti fengið að sjá dæmi um hversu stórbrotin íslensk náttúra getur verið.

Ferðin gekk vel, við gengum frá suðurstrandavegi við Herdísarvík og upp í Brennisteinsfjöll. Við vorum kannski um 2klst upp heiðina og um 1klst niður aftur en hækkunin er um 420m og lengdin um 11km. Það var rétt farið að birta þegar við lögðum af stað og komum niður í svarta myrkri en sáum norðurljós fyrir aftan okkur í norðri á leiðinni niður.

Myndir

Marie stekkur yfir hraungjótu á leiðinni
Þrívíð gatnamót í Ferli
Litafossinn
Þetta litasamspil er algjörlega magnað
Guðni virðir hraunfossinn fyrir sér
Guðni
Þarna sjá sumir að þetta er eins og kjaftur að æla á gólfið
Fossinn fer alveg fram af brúninni, við sáum ljósgeisla á milli
Horft í gin fossins
Flór í Ferli
Öðruvísi lýsing á flórinn
Marie
Marie
Við gatnamótin, þarna er dáldið magnað nef sem stinst út
Marie á 3. hæð
Daníel
Þröng göng
Daníel
Marie
Sterkir litir
Þarna má greina andlit
Guðni í einu auga andlitsins