Endurskrifað í mars 2012.

Árið 2005 bauðst Gumma að fara á Mt. Blanc í frönsku ölpunum. Að sjálfsögðu var slegið til og er óhætt að segja að þetta hafi verið upphafið af miklu ævintýri sem ekki sést fyrir endan á.

Í leiðangrinum voru Ásmundur Ívarsson, Guðmundur Freyr Jónsson, Haukur Haraldsson, Helgi Guðbergsson, Hrólfur Jónsson, Jón Helgi Guðmundsson og Valgarður Sæmundsson. Við vorum með fyrstu hópunum á svæðið þetta sumarið enda hálfgerður vetur þarna uppi um mánaðarmótin maí-júní.
Kuldinn var dáldill enda voru menn í dúnúlpum og einhverjir urðu slappir af því að vera ekki eins dúðaðir.
Ferðin gekk ágætlega, hæðaveiki tók sinn toll ásamt kuldanum.

Við vorum á eigin vegum þarna og vorum ekki með alpaguide með okkur. Ási og Valli höfðu farið áður, þekktu aðstæður og leiddu okkur hina upp fjallið.
Við fórum upp Traversuna eða The three monts route þar sem gist er í Cosmiques skálanum, farið upp Tacul brekkuna, yfir Mt. Maudit og loks á Mt. Blanc. Þegar við komum þangað var hinsvegar ákveðið að fara niður aðra leið sem heitir Grande Moulet til að þurfa ekki að hækka okkur á leiðinni þegar farið er yfir Maudit.
Á leiðinni vorum við orðnir ansi kaldir og stoppuðum við í neyðarskýlinu Vallot hut þar sem teppi ofl. var til staðar. Sem betur fer ákváðum við að andskotast niður í Grandes Moulet skálann sem var löng ganga en borgaði sig vel þar sem við vorum í góðum hita, miklu neðar og í þjónustuðum skála.
Daginn eftir gengum við svo niður í millikláfstöðina og tókum kláfinn niður í Chamonix.

Við aðlöguðum okkur með því að fara uppí Cosmiques, gista eina nótt og ganga upp Tacul jökulinn daginn eftir og fara svo niður í þorp og hvíla okkur í heilan dag. Vorum ágætlega heppnir með veður en hinsvegar var skíta kuldi þar sem vetur ríkti enn á fjallinu á þessum tíma. Allavega var skyggni yfirleitt gott.

Myndir

Hópurinn í Chamonix.
Útsýni á Tacul Triangle og jökulinn.
Spólað upp Tacul jökulinn.
Á sléttunni milli Tacul og Maudit, og allir að gramsa.
Ási og Valli fyrir utan Cosmiques.
Frá Tacul jöklinum.
Það eru lyftur í boði fyrir rétta aðila á þessari leið.
Túristi á leið í Cosmiques séð frá botni Cosmiques ridge.
Jón H. með Mt. Maudit í bak.
Helgi Guðbergsson með Grandes Jorasses og Dent du Géant í bak.
Fjallamenn á leið í Aguille du Midi.
Jón á leið í Midi.
Á hryggnum upp Midi.
Ási að velta fyrir sér aðvörunarskiltinu.
Í Chamonix á hvíldardaginn.
Úr brekkum Maudit sást sólin rísa.
Fundum greinilega hrygginn og hengjuna.
Á leið upp síðasta spöl á Mt. Maudit.
Mt. Blanc séð frá Mt. Maudit.
Gummi og Ási.
Að nálgast Blancinn, í bak sést Maudit.
Gummi og Jón á toppnum.
Að taka sig saman fyrir toppamynd.
Toppamyndin
Byrjaðir að lækka okkur niður að Vallot.
Ási
Kamarinn eftirminnilegi á Grandes Moulet skálanum.
Skriðjökullinn umkringir skálann.
Farið niður frá skálanum.
Að fara yfir ísfallið í Bossons glacier.
Síðasta pása áður en komið var að mið-kláfstöðinni þar sem við fórum niður.