Gummi fór ásamt pabba sínum til Alpanna yfir mánaðarmótin júlí - ágúst og reyndu m.a. við Matterhornið sjálft.

Fjallið stendur á, og markar landamæri Sviss og Ítalíu. Þetta er sennilegast með einum af frægari tindum heims, þar sem kauði er t.d. á öðrumhverjum svissneskum súkkulaðipakka, ásamt því að vera mjög vinsælt til klifurs. Ég held að það séu ekki til margir einstaklingar sem hafa ekki séð mynd af fjallinu, þó það viti ekki næstum allir af því.

Okkar leið lá frá Zermatt, sem er lítill bær Sviss-megin við fjallið, upp Matterhorn-Express lyftuna að stað sem heitir Schwarzee , og síðan er gengið að Hörnli Hut sem er alveg utaní sjálfu fjallinu. Gist þar og klifrað daginn eftir. Leiðin sjálf er kölluð Hörnli ridge, eða Hörnli hryggurinn.

Gangan uppað Hörnli hut frá Schwarzee var mun meiri en við héldum, en það var kannski aðallega af því að ég var orðinn svo slappur þarna... enda varð ég alveg hundlasinn um kvöldið.

Við reyndum bara einu sinni við fjallið, ég var alveg fárveikur kvöldið fyrir klifrið og átti í miklum erfiðleikum með að halda höfðinu uppi... og hvað þá við að koma niður kvöldmatnum í Hörnli hut. Fór bara snemma að sofa og vorum næstum búnir að afskrifa þessa tilraun.

Ég vaknaði aðeins skárri, en þó frekar slappur. Ég ákváð þó að láta á það reyna, því að veðurspáin fyrir næstu daga lofaði ekki góðu. Tók inn Diamox, lyf sem getur hjálpað mönnum gegn hæðarveiki (hefur samt ákv. aukaverkanir, fjalla kannski um þetta hér síðar) og við héldum af stað.

Það var alveg svona 15-20 manna biðröð að upphafi leiðarinnar (sjá mynd) þegar við komum þangað, enda voru mjög margir að fara upp þennan dag. Ég held samt að við höfum verið einu vitleysingarnir þarna sem vorum ekki með guide, sem er ekki vitlaus hugmynd á þessum stað, því það er mun erfiðara að rata þarna en maður heldur.

Þegar maður var kominn í gang fór mér nú að líða aðeins betur, en þó ekki vel. Við héldum áfram eins og við gátum reyndum bara að elta hina alveg eins og við gátum. Þetta fjall er nú bókstaflega bara mjög stór grjóthrúga, og við fengum aldeilis að finna lyktina af því þegar þvílíku grjóthnullungarnir hrundu og veltu niður hlíðarnar undan öllu liðinu sem var fyrir ofan okkur. Í eitt skiptið heyrðum við þvílíku lætin fyrir ofan okkur, við vorum staddir í miðjum klettum, og gátum ekkert gert nema bara faðmað vegginn og vonað það besta, en sem betur ferð stoppaði grjótið rétt áður en það kom yfir okkur.

Þvínæst héldum við áfram og tókum okkur smá pásu stuttu neðar en Solvay hut (neyðarskýli í rétt rúmlega 4000m hæð) Ég var orðinn frekar slappur aftur þarna.. og var kominn vel á leið með vatnsforðann útaf Diamoxinu og hitans sem var þarna. Við horfðum uppávið í átt að nokkrum klifrurum fyrir ofan okkur þegar við sáum þessa líka þvílíku grjótskriðu alveg þar sem við hefðum átt að vera hefðum við ekki stoppað. Á þessum tímapunkti var ákvörðunin tekin um að nú væri þetta ekkert sniðugt lengur, við vorum með alltof lítið að tryggingatólum, stutta línu og bara hreinlega ekki nógu vel útbúnir, og því myndum við núna snúa við niður.

Þetta var auðvitað mjög erfið ákvörðun, enda ekki mjög langt eftir ( svona 500 hæðarmetrar ), en miðað við hve slappur ég var orðinn og hversu hættulegt þetta var orðið held ég barasta hreint að ég sjái ekki eftir því. Ég næ þér næst sagði ég innra með mér við tindinn og segi það enn, enda held ég að ég muni ekki láta staðar numið, heldur klára þetta einhvern daginn, - félagar velkomnir!

Ferðin niður gekk hálf brösulega... villtumst aðeins af leiðinni, en komumst fljótt inná hana aftur með því að síga niður að henni. Fórum síðan alveg niður í Zermatt og hvíldum okkur vel.

Þegar við vorum lagðir af stað niður sáum við þyrluna koma 3x ofarlega í fjallið og hífðu einhvern/-hvað til sín í hvert skipti, vitum ekki meir hvað var í gangi þar. Meiraaðsegja daginn eftir var herþyrlan kominn þangað líka og voru báðar
á fullu utaní tindinum.

Myndir

Að leggja af stað frá Zermatt, með Matterhorn-Express.
Hérna erum við við Schwarzee, það sést uppað Hörnli Hut sem er efri skálinn á myndinni, þetta er drjúgt labb, en ekkert
hrikalegt samt.
Gengið að Hörnli hut.
Hérna erum við á pallinum á Hörnli hut.
Auðvitað verður maður nú að taka mynd af sér með viðfangsefninu.
Hérna byrjar klifrið. Á klettinum eru 4 svona spjöld með einhverjum greinum á, las það nú ekki allt... einhverjar 
minningar ofl.
Byrjaðir að klifra, lagt er af stað kl. 4 um morguninn, og þá er ennþá svarta-myrkur.
Sólinn að rísa upp... farin að skína aðeins á toppinn..
Þessi mynd er nú kannski svoldið skrýtin, en hún er eiginlega bara tekin beint niður.
Farnir að hækka okkur aðeins, og skýin komin að heilsa uppá okkur.
Eins og ég segi að þá er þetta bara stór grjóthrúga, sumir steinarnir eru fastir, en aðrir lausir !
Í miðri leið.
Hérna einhversstaðar tókum við pásuna okkar frægu.
Hérna er síðan mynd af fjallinu sjálfu sem við tókum útum þak-gluggann á hótelinu sem við vorum á.