Með flottari tindum landsins getur talist Lambatindur á ströndum. Hann líkist mikið Skessuhorninu í Skarðsheiði og er afar sjaldfarinn, enda á frekar fáförnum stað. Fjallið er tæplega 900m hátt og er gengið nánast frá sjávarmáli.

Ég sá margar flottar klifurlínur upp á tindinn mis erfiðar, alveg frá léttu snjóklifri uppí 3-4° ísfossa með hugsanlegum mixtöktum.

En í þetta skiptið var gengið á toppinn og gengur maður þá inn dalinn bakvið tindinn og upp á fjalllendið þarna, þvínæst er hryggnum á tindinn fylgt. Svoldill snjór var þarna, en þó ekkert sem gerði þetta erfitt. Mestallur fór niður í formi lítilla snjóflóða þegar maður tróð sér í gegnum hann.

Við Þórhallur tókum okkur göngufrí á föstudeginum og keyrðum á fimmtudagskvöldið norður á Hólmavík. Gistum á þægilegu gistihúsi þar og lögðum svo þokkalega snemma af stað á föstud. morgun.
Gangan byrjaði í alveg geggjuðu veðri, tindurinn blasti við okkur og sólin var farin að rísa. Tókum okkur bara góðan tíma í þetta enda ekki búnir að ganga neitt af viti í alltof langan tíma. Við fengum að upplifa nánast öll veður á fjöllum þennan dag, en það var heiðskýrt, logn, rok, skafrenningur, snjókoma, þoka, léttskýjað... held ég allt nema þrumuveður. Þó var ég sáttur með að fá mjög flott útsýni af toppnum, þó það væri rok og kuldi þegar þangað var komið.

þegar við komum niður var orðið skyggnislaust og kalt og vorum við dauðfegnir að hafa sloppið við þann pakka uppi á fjalli.

Um kvöldið keyrðum við síðan austur til Akureyrar, skelltum okkur í nuddpottinn strax morguninn eftir og gengum svo á Seldalsfjall við Öxnadalsheiði. Eftir það var brunað í bæinn og auðvitað skellt sér á eurovision patrý á nasa.

Myndir

Svona lítur Lambatindur út frá Veiðileysu.
Gengið er að honum og svo í kringum hann, þegar að honum er komið sjást margar mögulegar leiðir uppá hann.
Hér er Þórhallur í smá pásu undir tindinum, á myndinni sjást einhverjar íslínur ofl, en þó ekki nærri allar.
Hér erum við að ganga inn dalinn bakvið tindinn, þarna eru nokkrar misbrattar snjólínur upp.
Hér er komið á hrygginn þar sem skyggnið var í tæpara lagi.
Gekk þó mikið til og maður sá ferðafélagann af og til.
Þórhallur gengur utaní hryggnum. Þetta er ekki nærri því eins bratt og við vorum búnir að gera ráð fyrir.
Hér var ég nýbúinn að taka framúr honum og þið sjáið að skafrenningur og vindur var strax búið að fylla uppí sporin mín.
Örlítil uppstilling.
Hér er frekar lítið eftir uppá topp. Tindurinn þarna er sennilegast svona 50-100m lægri en Lambi.
Toppurinn nálgast.
Við hryggjarbrúnina.
Svo loksins komst maður á toppinn eftir mun auðveldari ferð en maður bjóst við. Vel þess virði að fara þangað í björtu veðri og njóta útsýnisins.
Horft til baka yfir hrygginn og tindana í bak.
Verður ekki að fylgja sönnun þess að maður hafi komið þarna upp.
Svona lítur hryggurinn út þegar komið er uppá brún í botni Seljadals.
Það var hálf kalt þarna... Ég reyndi að brosa, en var frosinn fastur með einhvern aulasvip.
Þessi er svo tekin ofanaf Seldalsfjalli, horft er út Öxnadalinn.